Söguþráður
Söguþráður
1. þáttur. Baldursbrá unir hag sínum vel í lautu sinni. Spói birtist og lýsir útsýninu ofan af ásnum og hve sólarlagið sé þar fagurt. Hann hyggst fara með Baldursbrá upp á ásinn og leitar hjálpar hjá Rebba vini sínum. Sá fæst til þess að bera Baldursbrá með semingi. Illilegur hrútur sést við ásinn í leit að einhverju ætilegu. Rebbi ber Baldursbrá upp á ásinn og hefur uppi varnaðarorð um vondar aðstæður fyrir viðkvæm blóm. Baldursbrá og Spói vilja ekkert heyra á það minnst en dásama útsýnið og sólarlagið.
2. þáttur. Baldursbrá vaknar sárþyrst á ásnum og segist ekki hafa það af án vatns. Hún verði að fara aftur heim í lautuna sína. Spói fer á ný til Rebba að leita liðsinnis. Rebbi er að vígja yrðlingana sjö til hrútaveiða með gömlum rímnalögum. Hann þverneitar að aðstoða Spóa aftur. Snýr upp á sig með sauðalæri í kjaftinum. Uppi á ásnum gerir hrúturinn atlögu að Baldursbrá. Yrðlingarnir koma hlaupandi og ætla að fella hrútinn en honum tekst að hrista þá af sér, rífur upp Baldursbrá með rótum og hverfur á braut. Spói kemur á ásinn og grípur í tómt.
3. þáttur. Spóa sárnar að Baldursbrá skuli hafa farið af ásnum án þess að bíða eftir sér. Þá heyrir hann í henni þar sem hún liggur í gjótu. Hrútnum þótti hún ekki góð á bragðið svo hann henti henni þangað niður. Þau sofna við gamalt þululag. Þegar þoka líður á ásinn birtist Rebbi. Hann tekur Baldursbrá upp og heldur af stað með hana niður ásinn. Þeir rata ekki í þokunni en rekast í staðinn á hrútinn. Rebbi ætlar að drepa fjandvin sinn en þegar hrúturinn segist rata í lautuna halda þeir þrír saman af stað með Baldursbrá. Þeir koma Baldursbrá fyrir í gömlu holunni sinni. Þá birtast yrðlingarnir æðandi og ætla að drepa hrútinn en Rebbi stöðvar þá. Þeir áttu að ráðast á leiðindahrút, ekki leiðsöguhrút; það sé allt önnur tegund. Allt fellur í ljúfa löð í fjörugum lokasöng við fornt danslag.
December 2024 M T W T F S S 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31