Ævintýraóperan Baldursbrá
Ævintýraóperan Baldursbrá er ný íslensk ópera, samin af Gunnsteini Ólafssyni og Böðvari Guðmundssyni. Óperan er fyrir fjóra einsöngvara, barnakór og kammersveit. Verkið er óður til íslenskrar náttúru. Baldursbrá lifir áhyggjulausu lífi í lautu sinni við lítnn læk þegar Spóa nokkurn ber að garði. Hann segir blóminu frá sólarlaginu sem blasir við ofan af ásnum og hvetur hana til þess að koma með sér að njóta dýrðarinnar. Þau fá Rebba til að bera blómið upp á ásinn en þar er hvorki skjól né vatn. Hræðillegur Hrútur eigrar um í leit að æti og situr um líf Baldursbrá en hann þarf líka að gæta sína á Rebba og fjörugum yrðlingum hans. Líf Baldursbrár hangir á Bláþræði og það er ekki fyrr en dýrin snúa bökum saman að þeim tekst að bjarga lífi blómsins og bera það heim í lautuna góðu.
Hugmyndin að Baldursbrá kviknaði á ferðalagi um Transylvaníu vorið 1987. Um sumarið sótti Gunnsteinn Ólafsson um styrk til Lista- og menningarráðs Kópavogs og fékk starfslaun til þriggja mánaða. Böðvar Guðmundsson tók að sér að semja óperutextann og skilaði af sér afbragðs líberettói í byrjun árs 1988. Síðla sumars sama ár hélt Gunnsteinn til Þessaloniki að heimsækja grískan vin sinn Georgios Sfiridis tónskáld. Hann útvegaði þeim félögum sumarbústað við Kassöndru-skaga, skammt frá Saloniki, þar sem þeir dvöldu allan septembermánuð við tónsmíðar.
Þegar Gunnsteinn kom til Grikklands var hann orðinn afhuga því að hafa yrðlinga í óperunni. Hugðist láta atburðarásina eingöngu hverfast um aðalpersónurnar Baldursbrá, Spóa, Rebba og Hrútinn. Þegar í sumarbústaðinn kom biðu hans hins vegar sjö nýfæddir hvolpar sem þörfnuðust ástar og umhyggju. Þeir nugguðu sér við fætur hans, líkt og greyin væru að biðja um að mega vera með í óperunni. Tónskáldið gat ekki annað en orðið við þeirri bón og hætti við að strika út yrðlingana. Reyndar varð þáttur þeirra í óperunni enn meiri fyrir vikið. Fyrsta gerð óperunnar var tilbúin í október 1988 en ekkert varð úr flutningi að sinni.
Snemma árs 2011 ákvað Gunnsteinn að dusta rykið af Baldursbrá. Sveinn Einarsson leikstjóri benti á veikleika í dramatískri uppbyggingu verksins og því endurskrifaði Gunnsteinn söguþráðinn og tónlistina að stórum hluta. Í stað strengjakvartetts varð hljómsveitin að vörpulegri kammersveit og nýr texti saminn að hluta – með góðfúslegu leyfi Böðvars.
Óperan var flutt á tvennum tónleikum sumarið 2014, á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og í Langholtskirkju. Tónleikarnir fengu afbragðs dóma og voru tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna. Steinunn Birna Ragnarsdóttir, þáverandi tónlistarstjóri Hörpu, lagði til að Baldursbrá yrði sett á svið í Hörpu árið 2015. Þá vildi Stefán Baldursson óperustjóri Íslensku óperunnar greiða götu Baldursbrár eftir megni. Þannig urðu Harpa og Íslenska óperan samstarfsaðilar að uppsetningunni í Norðurljósasal Hörpu haustið 2015 en Litla óperukompaníið stendur að fjármögnun og uppsetningu óperunnar.
Ævintýraóperan Baldursbrá var sett upp á sviði og sýnd á fimm sýningum í ágúst og september 2015 (29/8, 30/8, 31/8. 1/9 og aukasýning 13/9). Uppselt var á þær og því var óperan aftur sýnd í maí 2016 (20/5, 21/5 og 22/5).
Dóma er hægt að sjá hér.
Söguþráð er hægt að lesa hér.
Um höfunda og listræna stjórnendur er hægt að lesa hér.
Um flytjendur er hægt að lesa hér.
Hér má heyra tvö sýnishorn úr óperunni.
Þannig skal grípa gæs. Í þessu lagi er stoltur Rebbi að kenna yrðlingunum að veiða.
Lengi ég var aðeins lítið blóm. Aría Baldursbrár.