Um höfunda og listræna stjórnendur

Gunnsteinn Ólafsson

Gunnsteinn Ólafsson tónskáld og hljómsveitarstjóri nam tónsmíðar við Franz Liszt-tónlistarakademíuna í Búdapest 1983-1987 og tónsmíðar og hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg 1987- 1992. Hann hefur einkum samið kórtónlist og einsöngslög. Baldursbrá er frumraun hans á sviði óperutónsmíða. Gunnsteinn hefur stjórnað óperusýningum við Þjóðleikhúsið, Íslensku óperuna, hjá Óperustúdíói Austurlands og Sumaróperunni í Reykjavík. Þá frumflutti hann hér á landi Orfeo eftir Monteverdi og King Arthur eftir Purcell.

 

 

 

Böðvar GuðmundssonBöðvar Guðmundsson rithöfundur og skáld hefur samið óperu- texta fyrir fjölmargar óperur eftir íslensk tónskáld auk þess að gefa út skáldsögur og ljóðabækur og semja leikrit. Þá hefur hann þýtt fjölda erlendra verka fyrir börn og fullorðna. Skáldsögur Böðvars um ferðir Íslendinga til Vesturheims vöktu mikla athygli og hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari, Lífsins tré.

 

 

 

Sveinn EinarssonSveinn Einarsson leikstjóri hefur verið i fremstu röð íslenskra leikhúsmanna í um hálfa öld; hann á reyndar 50 ára leikstjórnarafmæli nú í haust. Sveinn á að baki tugi stórra leiksýninga og sjónvarpsverka. Hann hefur stýrt fjölmörgum óperum, þar af  frumuppfærslum á þremur: Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson, Gretti eftir Þorkel Sigurbjönsson og Fredkulla eftir Udbye, elstu óperu Noregs. Hún var frumflutt á 1000 ára afmæli Þrándheims árið 1997.

 

 

 

Kristína-herranótt-2015Kristína R. Berman búningahönnuður útskrifaðist með BA-gráðu úr textíldeild Listaháskóla Íslands árið 2001. Meðal leikhúsa sem Kristina hefur hannað leikmynd og/eða búninga fyrir eru Þjóðleikhúsið, Herranótt, Hugleikur, Leikhópurinn Lotta, Einleikhúsið, Kvenfélagið Garpur og Nemendaleikhúsið.

 

 

 

 

Sigurjón JóhannssonSigurjón Jóhannsson leikmyndagerðarmaður er fæddur á Siglufirði. Hann útskrifaðist frá MR og lagði stund á myndlist og arkitektúr á Ítalíu, síðar við Handíða- og myndlistaskólann og Myndlistaskólann í Reykjavík. Sigurjón hélt sína fyrstu einkasýningu og var einn af stofnendum SÚM-hópsins árið 1965. Hann lagði stund á leikmynda- og búningahönnun í Kaupmannahöfn en hélt síðan heim til Íslands að starfa við leikhús. Hann var lengi fastráðinn við Þjóðleikhúsið sem leikmyndahönnuður en hefur auk þess unnið fyrir Borgarleikhúsið, Íslensku óperuna og Íslenska dansflokkinn. Sigurjón fékk heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands árið 2012.

 

 

Messí BaldursbráMessíana Tómasdóttir grímugerðarkona stundaði nám í myndlist, leikmynda- og búningahönnun og brúðuleikhúsi hér heima, í Danmörku og í Frakklandi. Hún er höfundur að leikmyndum og búningum um 80 leiksýninga, ópera og sjónvarpsverka innanland og utan. Hún hefur haldið 15 myndlistarsýningar og haldið námskeið og fyrirlestra um litafræði og brúðuleikhús á Íslandi, Norðurlöndunum og víðar. Messíana hefur notið fjölda starfs-, náms- og ferðastyrkja og var Borgarlistamaður Reykjavíkur 1983. Messíana rekur sitt eigið leikhús, Strengjaleikhúsið, sem hefur frumflutt sjö íslenskar óperur, þar af fimm barnaóperur. Þessar óperur hafa m.a. verið sýndar í samvinnu við Íslensku óperuna. Námsefni tengt barnaóperunum hefur um árabil verið notað til kennslu í grunnskólum landsins.

 

 

Ingibjörg Björnsdóttir

Ingibjörg Björnsdóttir

Ingibjörg Björnsdóttir danshöfundur stundaði nám við Listdansskóla Þjóðleikhússins og dansaði í fjölmörgum sýningum leikhússins. Hún var við framhaldsnám við Skoska ballettskólann í Edinborg í þrjú ár þar sem hún lagði stunda á listdanskennslu ásamt dansaranáminu. Hún var kennari við Listdansskóla Þjóðleikhússins og dansari í sýningum leikhússins, skólastjóri við sama skóla og síðan skólastjóri Listdansskóla Íslands. Ingibjörg var danshöfundur í mörgum sýningum Þjóðleikhússins og samdi nokkur verk fyrir Íslenska dansflokkinn. Ingibjörg hefur auk þess samið dansa fyrir ýmsa leikhúshópa og tónlistarhópa, einkum endurreisnar- og barokkdansa, sem og fyrir sjónvarp.

 

 

 

 

Páll RagnarssonPáll Ragnarsson ljósahönnuður hóf störf hjá Þjóleikhúsinu árið 1966 og var ljósameistari þess frá 1986-2008. Hann hefur hannað lýsingu fyrir nærri áttatíu sýningar í Þjóðleikhúsinu, leiksýningar af ýmsu tagi, listdanssýningar, söngleiki og óperur. Árið 2008 tók Páll við starfi sem ljósameistari Íslensku óperunnar og lýsti þar margar sýningar m.a. Cosi fan tutte, Dagbók Önnu Frank, Cavallería Rusticana og Pagliacci, Ástardrykkinn og Rigoletto. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir lýsingu sína á óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson og Don Carlo eftir Verdi.

 

 

 

Elsa Þuríður ÞórisdóttirElsa Þuríður Þórisdóttir sér um förðun í Baldursbrá. Hún lærði snyrtifræði í Kaupmannahöfn 1975 og eftir það hárkollugerð og förðun hjá Þjóðleikhúsi Íslands. Þar vann hún til 1987 við allar sýningar. Næstu 14 ár bjó Elsa í Frakklandi og Englandi og sótti þar ýmis námskeið sem tilheyra faginu.
Hún kom síðan aftur til starfa hjá Þjóðleikhúsinu 2003 og hefur unnið við fjölmargar sýningar þar, t.d. Edith Piaf, Fridu Khalo, Kardimommubæinn, Mýrarljós og Leg.
 Síðustu ár hefur Elsa starfað í Borgarleikhúsinu m.a. við Galdrakarlinn i OZ og Mary Poppins.

 

 

 

Bragi J. IngibergssonBragi J. Ingibergsson ljósmyndari á myndir sem birtast í sýningunni Baldursbrá. Hann hefur fengist við ljósmyndun í rúmlega 40 ár, aðallega landslags- og náttúruljósmyndun. Myndir hans hafa verið birtar í bókum og tímaritum í fjölmörgum löndum, hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun í stórum alþjóðlegum ljósmyndakeppnum. Sem dæmi má nefna aðalverðlaunin og tilnefninguna „ljósmyndari ársins“ í einni stærstu keppninni árið 2009 „The Digital Camera Magazine Photographer of the Year“ í Bretlandi og gullverðlaun í almennum flokki í „The Trierenberg Super Circuit“ í Austurríki 2013.

 

 

 

Margrét GuðjónsdóttirMargrét Guðjónsdóttir er framkvæmdastjóri Ævintýraóperunnar Baldursbrár. Hún er þjóðfræðingur að mennt og hefur MA í menningarstjórnun auk þess að hafa lokið söngnámi. Hún hefur um árabil verið þátttakandi í tónlistarlífinu í Borgarfirði og Reykjavík, setið í stjórnum Tónlistarfélags Borgarfjarðar, Tónsnillinga morgundagsins og Landssambands blandaðra kóra. Þá hefur hún verið verkefnastjóri Félags um tónlistarbúðir í Skálholti, IsNord -tónlistarhátíðarinnar í Borgarfirði og verkefnastjóri Listafélags Langholtskirkju.