Dómar

Ævintýraóperan Baldursbrá var frumsýnd í Norðurljósasal Hörpu í sviðsuppsetningu 29. ágúst 2015. í dómum um sýninguna segir eftirfarandi.

Dómur úr þýska tímaritinu Opernwelt, nóvemberheftinu 2015.

Á dögunum birtist gagnrýni í þýska óperublaðinu Opernwelt um ævintýraóperuna Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson. Höfundur greinarinnar, Carsten Niemann, rekur söguþráð óperunnar og víkur síðan að flutningnum. „Athyglisverðustu hlutar óperunnar í dramatísku tilliti, bæði hvað tónlist, texta og sviðssetningu varðar, eru þeir sem sýna náttúruna í sinni völtu og hráu mynd. Best tekst að skapa persónu Spóans en tónskáldið glæðir laglínur hans m.a. með síendurteknum stefjabrotum. Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur hlutverkið ekki aðeins af kímni og nákvæmni; klaufalegt göngulag og snöggar höfuðhreyfingar hans bera þess vitni að söngvarinn er vel að sér í heimi villtra fugla.“

Carsten Niemann fer lofsamlegum orðum um kór yrðlinga. Segir hann setja sterkan svip á sýninguna. „Þar er á ferð frísklegur og söngviss flokkur sem leggur til atlögu við Hrútinn, skrýddan ullarreifi sem Kristín R. Berman búningahönnuður útbjó af miklu hugmyndaauðgi.“

Greinarhöfundur er einnig ánægður með tónlist Gunnsteins Ólafssonar. „Tónlistin ber víða fagurt vitni um laglínugáfu tónskáldsins, tæknilega leikni hans og tilfinningu fyrir forminu. Sögunni er skipt niður í aðskilin tónlistaratriði og klædd í litríkan hljómsveitarbúning; óperan er í heild sinni sambland af frumlegu og hefðbundnu listaverki. Ekki má heldur gleyma því að áhorfendur í fjölnota sal Hörpu fengu að heyra óperu á íslenskri tungu þar sem tónmálið náði frá rómantík til nútímatónlistar, bragðbætt með örlitlu af musical.“ Að endingu spáir gagnrýnandinn því að draumsöngur Baldursbrár muni njóta vinsælda, í það minnsta á Íslandi.

Hér má sjá gagnrýnina í heild sinni:  Opernwelt kritik

Hugarás, vefrit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands 

Ópera Gunnsteins Ólafssonar er frumleg og flott. Hann notar sér rímnalög, þulur og sálma úr íslenskri þjóðlaga og söngvahefð, sem fáir þekkja betur en hann. Þetta fléttar hann inn í nútímalega óperu sem er létt og full af grípandi stefjum, húmor og dramatík….

Það var hápunktur sýningarinnar þegar þau (yrðlingarnir) sungu „Lokaþrautin eftir er“, syrpu af rímnalögum við eigin trommuundirleik.

Líberettó Böðvars Guðmundssonar er dásamlega skemmtilegt, fjörugt og fyndið en líka fullt af mannviti og kannski er sýningin fyrst og fremst óður til bernskunnar.

Yfir sýningunni hvíldi bæði barnslegt sakleysi og grallaraskapur sem minnti á aðferð Ingmars Bergmann í frægri uppsetningu hans á Töfraflautu Mozarts. Allir listamennirnir sem að þessari sýningu komu lögðu sitt af mörkum til að gera sýninguna jafn tæra, stílhreina og vandaða og raun bar vitni.

Dagný Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum nútímabókmenntum sjá nánar hér

 

Morgunblaðið 1. september 2015 – Ríkarður Örn Pálsson (fjórar stjörnur af fimm): 

Gagnryni_Mbl_01092015

 

Fréttablaðið 3. september 2015 – Jónas Sen (þrjár stjörnur af fimm)

Fjóla Kristín Nikulásdóttir söng betur en í fyrra. Röddin var þéttari og hún barst ágætlega um salinn. Eyjólfur Eyjólfsson var skemmtilegur spói, vandræðalegur og klaufskur, en með hjartað á réttum stað. Söngurinn var fallegur og áreynslulaus. Svipað var uppi á teningnum með söng Jóns Svavars Jósefssonar í hlutverki rebbans. Hann var kröftugur og snarpur og leikurinn var afar fjörlegur.

Að öðrum ólöstuðum voru það þó hinir sem stálu senunni. Kór yrðlinganna, sem samanstóð af börnum og unglingum, var frábær. Hann var geislandi líflegur og sönggleðin var smitandi. Segja má að það hafi alltaf birt til í salnum þegar hann hóf upp raust sína. Hrúturinn sem leikinn var af Davíð Ólafssyni var einnig magnaður. Höfuðhreyfingarnar hans voru svo líkar alvöru hrút að maður skellti upp úr hvað eftir annað. Það var fyndið – en um leið óhugnanlegt. Hrúturinn er eyðileggjandi afl í sögunni, og Davíð náði að skapa nettan hrylling sem var merkilega sannfærandi.

Stór partur af hryllingnum var búningurinn sem Davíð var í. Hann var skapaður af Kristínu R. Berman. Þetta var flott gervi, og sama er að segja um búninga hinna. Þeir voru litríkir og samsvöruðu sér prýðilega við heildarmyndina.

Sveinn Einarsson leikstýrði af fagmennsku; leikurinn var eðlilegur og óheftur. Sýningin hefði verið framúrskarandi ef sögumaður hefði skýrt atburðarrásina betur.

Tónlistin sjálf var eftir Gunnstein Ólafsson sem stjórnaði flutningnum. Hún var ákaflega skemmtileg. Barnaópera þarf að vera aðgengileg, og það var hún svo sannarlega. Þarna var fullt af grípandi laglínum og þær voru prýðilega útsettar fyrir hljómsveitina og söngvarana. Tónmálið var blátt áfram; tónlistin rann ljúflega niður. Gaman væri að heyra meira eftir Gunnstein í nánustu framtíð.

Nánar er hægt að lesa dóminn hér. 

 

 

Ævintýraóperan Baldursbrá var flutt á tvennum tónleikum sumarið 2014.

Tónleikarnir voru tilnefndir til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014.

Í dómum um tónleikana  sagði eftirfarandi:

Morgunblaðið

Fremstur meðal einsöngsjafningja var Eyjólfur Eyjólfsson í hlutverki Spóans, hollvinar Baldursbrár, er ég man ekki eftir að hafa áður heyrt í betra og safaríkara formi. Titilhlutverkið var í kliðmjúkum höndum Fjólu Nikulásdóttur er komst bráðfallega frá sínu að lokinni upphitun eftir fyrstu raddveikustu númerin. Jón Svavar hafði tekið við í forföllum Ágústs Ólafssonar með litlum fyrirvara en stóð sig samt með prýði sem Rebbi og Davíð Ólafsson var óborganlegur í skúrkshlutverki Hrúts. Krakkarnir í barnakórnum sungu, léku á trommur og dönsuðu af hrífandi öryggi, og hljómsveitin var nánast óaðfinnanleg undir skilvirkri stjórn höfundar, er laðaði fram allt sem til þurfti með svellandi glæsibrag, ef frá er talinn fyrrgetinn jafnvægisvandi strengja og blásara sem ekki varð við ráðið í stöðunni.

Það er sjaldgæft … að heyra jafn augljóslega innblásið og heiðtært tónverk sem ber jafnsterka vísbendingu um varanlegt endingargildi þegar við fyrstu heyrn…Fjölbreytnin var satt að segja ótrúleg… Umfram allt var heildarsvipurinn daggferskur sem íslenzkt lindarvatn; ýmist ljóðrænn, broslegur eða dramatískur.

4.5  af 5 stjörnum. Ríkarður Örn Pálsson í Morgunblaðinu 11.7.14

Fréttablaðið

Texti Böðvars er frábærlega ortur og tónlistin er eins góð og hugsast getur. Hún er alþýðleg og grípandi, með frábærlega skemmtilegum litbrigðum…Það var húmor í henni.. Þegar ég gekk út af tónleikunum heyrði ég fólk vera að blístra stef úr óperunni. Það eitt og sér er góður vitnisburður. Niðurstaða: Tilkomumikil barnaópera, lífleg tónlist og texti, kröftugur flutningur.

4 af 5 stjörnum. Jónas Sen í Fréttablaðinu 11.7.14, sjá nánar hér.

www.tmm.forlagið.is

Lögin hans Gunnsteins eru dillandi skemmtileg, mjög söngvæn og draga vel fram fyndnina og fjörið í texta Böðvars. Persónur eru skýrar og hafa hver sinn úthugsaða karakter, bæði í texta og tónum… Söngvararnir voru hver öðrum betri. Ef marka má viðtökurnar í Langholtskirkju í gærkvöldi er full ástæða til að setja óperuna á svið.

Leikdómur Silju Aðalsteinsdóttur á www.tmm.forlagid.is 10.7. 2014, sjá nánar hér.

Blogg Arnþórs Helgasonar

Baldursbrá Gunnsteins og Böðvars – frábært listaverk. Ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður vafalítið verðlaunasýning ársins 2014, verði hún sett á svið… Texti Böðvars vakti aðdáun og gleði fólks. Hið sama var um tónlist Gunnsteins sem leitaði víða fanga, allt frá íslenskum stemmum suður og austur til slavneskra dansa. Útsetningarnar voru einstaklega vel gerðar og margt undur fallegt á að hlýða, enda móttökurnar í samræmi við gæðin.

Blogg Arnþórs Helgasonar á 9.7.2014, sjá nánar hér.